Breytingar á skólastarfi næstu tvær vikurnar

Starfsfólk í Brúarásskóla hefur í dag unnið að því að skipuleggja næstu tvær vikur skólastarfsins vegna hertra sóttvarnarreglna í grunnskólum. Reglugerðin sem gildir frá og með morgundeginum bannar m.a. íþróttir og sund á skólatíma. Þetta er nokkuð íþyngjandi í okkar skóla þar sem við njótum góðs af ágætri íþróttaaðstöðu innan- og utanhúss sem reynt er að nýta skólastarfinu til heilla. Til að bregðast við því að fylla þarf uppí þær kennslustundir sem detta út í sundi og íþróttum var niðurstaðan að stytta skóladaginn þessar tvær vikur þannig að skóla lýkur 13:30 á mánudögum og föstudögum og 13:50 á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum.  Starfstími leikskólans mun ennfremur styttast sem þessu nemur og það mun endurspeglast í leikskólagjöldum. Flestir voru sammála um að þetta væri skársta leiðin í stöðunni.  Á morgun þriðjudaginn 3. nóvember hefst skólastarf á hefðbundnum tíma kl. 8:55 en lýkur eins og áður sagði kl. 13:50.

Sú krafa er nú sett fram í reglugerð um skólastarf að kennarar og nemendur í eldri bekkjum grunnskóla noti grímu þegar ekki er hægt að viðhafa tveggja metra regluna. Skólinn mun skaffa grímur eins og þarf en foreldrar eru beðnir að ræða þessar breyttu áherslur við börn sín.

Meðan þessar hertu aðgerðir eru í gangi munum við nýta íþróttasalinn sem matsal. Stærð hans gerir okkur kleift að viðhalda 2. metra reglunni og þar stöndum við mun betur að vígi en margir fjölmennari skólar þar sem vandséð er að hægt verði að bjóða uppá mat úr mötuneyti næstu 2 vikur. 

Kennarar og annað starfsfólk skólans er sammála um að reyna að gera lífið hjá nemendum sem eðlilegast og skemmtilegast á þessum skrítnu tímum en það er áskorun sem við ásamt  foreldrum stöndum frammi fyrir. Hinsvegar vonumst við öll til að árangur náist nú hratt í baráttunni við Covid og slakað verði á reglum að tveimur vikum liðnum.