Með einstaklingsmiðun er brugðist við þörfum hvers nemanda. Þær eru ólíkar og í einstaklingsmiðuðu námi metur kennari hvers nemandi þarfnast og hvort viðkomandi fái nám við hæfi. Athyglinni er beint að því hvort nemandinn þurfi að þjálfa hæfni með meiri hóp- eða samvinnu, hvort hann þurfi sérstuðning á einhverju sviði o.fl. Þegar þörfin hefur verið greind er lögð áhersla á að viðkomandi fái viðfangsefni við hæfi.
Nemendur læra ekki allir það sama á sama tíma heldur fást þeir við ólík viðfangsefni eða nálgast sama viðfangsefnið á ólíkan hátt. Hver og einn vinnur á eigin hraða, einstaklingslega, í paravinnu eða hópvinnu. Talsverð áhersla er lögð á ábyrgð nemenda á eigin námi, að virkja áhuga þeirra og að þeir séu virkir þátttakendur. Vegna þess hve nálgunin í einstaklingsmiðuðu námi er fjölbreytt og viðfangsefnin oft ólík er mikilvægt að allar skráningar á framförum og verkefnum nemenda séu nákvæmar.