Áfallaáætlun

Áfallahjálp
Þegar áfall ber að, er mjög mikilvægt að brugðist sé rétt við og viðeigandi ráðstafanir gerðar til að bæta líðan þolanda/þolenda, aðstandenda og vina. Áföll geta verið andlát nákomins ættingja eða vinar, skilnaður foreldra, alvarleg veikindi aðstandenda eða nemanda, slys í umhverfinu eða fleira sem getur valdið áfalli hjá nemanda.

Áfallaáætlun - við áfall nemanda eða starfsmanns
Skólastjóri fær staðfestingu á áfalli hjá foreldrum eða aðstandendum viðkomandi nemanda.
Skólastjóri tilkynnir umsjónarkennara og öðrum kennurum barnsins.
Umsjónarkennari og skólastjóri heimsækja viðkomandi nemanda og færa honum kveðju frá skólanum t.d. blóm eða samúðarkveðju. Þetta á einnig við ef áfall (dauðsfall, alvarleg veikindi) á sér stað í sumarfríi skólans.
Umsjónarkennari undirbýr vel tilkynningu til bekkjarins. Mikilvægt að skólahald fari ekki úr skorðum.
Endurkoma nemanda í skólann undirbúin í samráði við forráðamenn.
Umsjónarkennari ræðir við bekkinn fyrir komu barnsins og undirbýr komu þess í skólann aftur.
Ávallt skal gæta þess að hafa samráð við ættingja um aðgerðir skólans.

Viðbrögð við andláti nemanda
Í flestum tilvikum deyr nemandi af slysförum. Áfallið er þá skyndilegt og oft stuttur tími til undirbúnings. Skólinn verður því að tilkynna nemendum andlátið. Best væri ef umsjónarkennari, eða sá, sem þekkir hópinn best, tilkynnir andlátið og verði með börnunum í hlutverki sálusorgarans.

*   Allt starfsfólk skólans þarf að fá vitneskju um andlátið sem fyrst. Skólinn afli sér fyllri upplýsinga frá fyrstu hendi um atburðinn svo að þær liggi skýrar fyrir. Haft samband við viðkomandi sóknarprest.

*   Umsjónarkennari og skólastjóri heimsækja foreldra barnsins, sinna bekkjarsystkinum þess og öðrum nemendum skólans. Höfð samverustund á sal og/eða hver bekkur fyrir sig.

*   Koma fyrir borði á hentugum stað í skólanum með mynd af hinum/hinni látna/u og nafni, skreytt með blómum og látið loga á kerti. Flaggað í hálfa stöng.

*   Minningu hins/hinnar látna/u sýnd tilhlýðileg virðing.

*   Bekkurinn getur safnað fyrir blómvendi og samið sameiginlegt samúðarbréf og afhent foreldrum. Síðar geta þau tekið saman minningarbrot um hið látna skólasystkini og afhent foreldrunum. Teiknað myndir, plantað tré á skólalóðinni eða sett eitthvað til minningar um hinn/hina látna/u í skólastofuna.

*   Jarðarförin. Ákveða hverjir mæta fyrir hönd skólans - hvernig hluttekning er sýnd og hver/hverjir skrifa minningargrein fyrir hönd skólans.

Unnið með bekk eða alla nemendur skólans eins lengi og þörf þykir. Ávallt skal gæta þess að hafa samráð við ættingja um aðgerðir skólans.

Í skólanum skal vera til taks:

Uppkast að bréfi til að senda heim með nemendum.
Safn af lestrarefni um sorg og sorgarviðbrögð barna.