Trúnaður

Starfsfólk skólans hefur trúnaðarskyldur gagnvart:
- foreldrum
- nemendum
- samkennurum/samstarfsfólki
- yfirmanni

Trúnaður gagnvart foreldrum er algjör. Starfsmaður sem öðlast vitneskju um persónulega hagi foreldris er bundinn algjöru þagnarheiti nema viðkomandi foreldri leyfi annað til lausnar á tilteknu máli. Annað á við ef um er að ræða tilkynningaskyldar upplýsingar.

Ef nemandi trúir kennara eða öðrum starfsmanni skólans fyrir máli skal það ekki fara lengra nema í samráði við nemandann, nema annað sé nauðsynlegt vegna hagsmuna nemandans sjálfs, sbr. tilkynningaskyldu. Mjög mikilvægt er að gagnkvæmt traust og trúnaður ríki á milli nemenda og kennara. Á sama hátt mega kennarar ekki ræða mál einstakra nemenda annars staðar en þar sem það á við í skólastarfinu. Á kennarastofunni verða starfsmenn að gæta sín í umræðum um einstaka nemendur.

Trúnaður gagnvart samstarfsmönnum felst m.a. í því að umræður um starfstengd málefni milli kennara og starfsmanna eru einkamál. Ekki er heimilt að bera á torg viðhorf, skoðanir, starfsaðferðir eða vinnubrögð samstarfsmanna. Starfsaðferðir eru ræddar innan veggja skólans og þar við látið sitja. Einnig mega kennarar ekki ræða innri mál skólans utan hans.

Trúnaður gagnvart yfirmanni felst m.a. í því að hlýða fyrirmælum yfirmanns, þagnarskyldu gagnvart yfirmanni og láta vita um það sem er ábótavant. Ekki skal vinna gegn ákvörðun yfirmanns. Sé starfsmaður óánægður með ákvarðanatöku yfirmanns skal hann láta yfirmann vita, einnig ef hann ætlar að taka málið upp við næsta yfirmann (fræðslunefnd).

Skólastjóri fer með trúnaðarbrot eins og hans embætti segir til um, þ.e. veitir munnlega eða skriflega áminningu eftir eðli hvers máls.

Meðferð trúnaðargagna
Trúnaðargögn er snerta einstaka nemendur skólans eru kynnt kennurum og öðrum þeim sérfræðingum sem hlut eiga að máli. Gögnin eru varðveitt í persónumöppum í læstri hirslu. Varðveisla trúnaðargagna Brúarásskóla er á ábyrgð skólans og viðkomandi sveitarfélags og fer fram samkvæmt gildandi reglum og lögum.

Upplýsingaskylda sbr. 17. grein barnaverndarlaga
Allir starfsmenn sem verða varir við einhverja þætti í fari nemenda sem ætla mætti að geti skaðað þá á einhvern hátt eru skyldugir til að tilkynna það til skólastjórnenda strax. Hér getur t.d. verið um að ræða:

Háskalega leiki.
Reykingar eða aðra neyslu á vímuefnum.
Grun um að nemandi sé beittur ofbeldi.
Grun um að nemandi verði fyrir óæskilegu áreiti.
Almenna vanrækslu.
Önnur þau atriði sem ekki hæfa nemendum.