Samskipti útávið

Brúarásskóli er ekki eyland, frekar en aðrir skólar, og á í góðum og miklum samskiptum við ýmsa aðila í nærsamfélaginu og lengra til. Hér er yfirlit yfir það helsta í þeim ranni:

Við aðra grunnskóla á Héraði
Grunnskólar á Héraði eiga með sér ágætt samstarf. Sameiginlegir starfsdagar kennara eru nokkrir árlega, þá er gjarnan boðið upp á námskeið og fyrirlestra sem starfsfólki allra skólanna gefst kostur á að sækja. 
Á vorin eru haldnir svokallaðir Héraðsleikar, þar sem yngsta, mið- og efsta stig nemenda skipta sér milli skóla og gera ýmislegt skemmtilegt saman, s.s. stunda íþróttir, fara í leiki og sækja stutt námskeið. 
Nemendur 7. bekkja skólanna fara á hverju ári í sameiginlega náttúrufræðiferð til Mývatns.
Árlega er haldin miðstigsskemmtun í Brúarási þar sem 5. - 7. bekkjum skólanna á Fljótsdalshéraði, Borgarfirði og í Mjóafirði er boðið. 
Annað hvert ár er haldinn sameiginlegur nýsköpunardagur skólanna á Fljótsdalshéraði með tilheyrandi sýningum.

Við vinaskóla  
Grunnskólinn í Fuglafirði í Færeyjum er vinaskóli okkar. Nemendur og kennarar þaðan komu í heimsókn á vordögum 2015. Myndir frá því eru hér. Nemendur Brúarásskóla fóru síðan til Færeyja um haustið 2015 á styrkveitingu frá Nordplus. 

Við framhaldsskóla 
Nemendur tíunda bekkjar fara í heimsóknir í Menntaskólann á Egilsstöðum og Verkmenntaskólann í Neskaupstað á vorin, og fá kynningu á skólastarfinu. Einnig hefur tíðkast að bjóða grunnskólanemendum að taka staka áfanga í ME í fjarnámi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Við tónlistarskólann 
Tónlistarskóli Norðurhéraðs er rekinn í húsnæði Brúarásskóla. Flestallir nemendur skólans stunda þar nám undir forystu Jóns Inga Arngrímssonar skólastjóra tónlistarskólans. Mikill metnaður er hjá kennurum tónlistarskólans að börnin læri sem mest og æfist í að spila opinberlega, og kennarar skólans eru úrvalslið. Nemendur eru teknir út úr venjulegum tímum til að fara í tónlistarnám sitt, í góðu samráði við kennara grunnskólans.

Við félagsmiðstöð 
Á Egilsstöðum er rekin félagsmiðstöðin Nýung og í Fellabæ heitir félagsmiðstöðin Afrek. Viðburðadagatal hvers mánaðar er hengt upp í skólanum, nemendur eru meðlimir í facebook-hópi félagsmiðstöðvanna og eru því vel upplýstir um hvað er í boði. Nemendur Brúarásskóla eru hvött til að mæta á viðburði og opin hús félagsmiðstöðvanna, þau hafa staðið sig vel í ýmsum keppnum á borð við Samfellu og Stíl og taka virkan þátt í ýmsu starfi.

Við foreldrafélag 
Foreldrafélagið er okkar helsta stoð og stytta. Við höfum til dæmis átt stuðning þess vísan í hina árlegu og ómissandi Akureyrarferð. Félagið sér auk þess um að kaupa jólagjafir handa börnum leikskólans, nammi fyrir öskudagsgleðina, og leitast við að styðja uppákomur og ferðalög nemenda skólans í hvívetna. 
Frekari upplýsingar um félagið er að finna hér.

Við nærsamfélag 
Ungmennafélagið Ásinn hefur verið með æfingar í íþróttahúsinu ásamt samstarfi um Þrettándagleðina.

Við fyrirtæki og stofnanir sveitarfélagsins
Á vorin fara nemendur unglingadeildar í viku starfsfræðslu í fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Þau koma sjálf með óskir um hvert þau vilji fara og reynt er að koma til móts við þær óskir eftir því sem framast er hægt. Undantekningarlaust er tekið vel á móti þeim og þau öðlast dýrmæta reynslu þessa daga.