Viðburðir á vorönn

Þrettándagleði er skemmtun sem haldin er í byrjun janúar í samvinnu við ungmennafélagið Ásinn.
Tónlist á þrettándagleði Hringdans á þorrablóti
Skólaþorrablót er haldið á bóndadeginum. Þá helgum við daginn fornum siðum og borðum þorramat í salnum.

LEGOferð. Í lok janúar/byrjun febrúar fara nemendur á unglingastigi og keppa í First LEGO League tækni- og hönnunarkeppni. Hver nemandi fer í tvær slíkar ferðir á sínum skólaferli. Gist er í Reykjavík í tvær nætur og auk keppninnar nýtum við tímann vel, förum í lazertag, bíó og leikum okkur.
Brautakeppni LEGO í Háskólabíói Nýsköpunarvinna með færeyskum vinum
Tvisvar á ári eru haldnir nýsköpunardagar, þar sem nemendur vinna að fjölbreyttum verkefnum í nýsköpun. Oft lýkur þessum dögum með einhvers konar sýningu eða kynningu og nemendur taka þátt í Nýsköpunarkeppni grunnskóla á hverju ári.

Héraðsleikar eru haldnir á vorin þar sem nemendur allra grunnskóla á Fljótsdalshéraði hittast og gera sér glaðan dag í leikjum og á námskeiðum. 
Háskólalestin á Vopnafirði Lítil og stór börn í leikjum í sal
Í tilefni af degi leikskólans 6. febrúar gleðja grunnskólabörn leikskólanemendur með heimsóknum.

Grímuball er haldið á öskudag í samstarfi við foreldrafélagið.
Öskudagsball Lokalag árshátíðar 2015
Árshátíðin er haldin í mars og er þá flutt leikverk þar sem allir nemendur eru með hlutverk. Einnig er tombóla og ýmsar getraunir fyrir gesti að spreyta sig á, ásamt kræsingum úr eldhúsinu.

Í apríl er haldið upp á dag umhverfisins með fjölbreyttum umhverfisverkefnum. Fyrsta vikan í hverjum mánuði skólaársins er ennfremur útikennsluvika og þá leitast kennarar við að vinna úti með nemendum sínum eins og kostur er.
Dagur umhverfisins 2015 Yngsti hópurinn úti í náttúrunni
Sérstakar þema- og útivikur eru í maí og um mánaðamótin maí/júní er farið í dagsferð með nemendum ásamt elsta árgangi úr leikskólanum. Skólaslit eru síðan á síðasta degi skólaársins. Þá eru afhentar einkunnir og viðurkenningar. Stuttu eftir skólalok er haldinn vorverkadagur í samstarfi við foreldra.

Á tveggja ára fresti fer 9.-10. bekkur skólans í skólaferðalag til Danmerkur. Stefnt er að því að allir nemendur fari einu sinni í slíkt ferðalag. Ferðin er farin að vori og yfirleitt gist í fimm til sex nætur. Nemendafélagið safnar fyrir ferðina með alls kyns fjáröflunarverkefnum. 
Með skutlum í LEGO-landi Drengir að fíla Danmörku