Jafnréttisáætlun Brúarásskóla
Endurskoðuð nóvember 2018 og gildir til nóvember 2021.
Í skólanámskrá skal gera grein fyrir hvernig unnið sé með jafnrétti samkvæmt lögum nr. 10/2008 um jafnan rétt kvenna og karla. Mikilvægt er að nemendur og starfsfólk skólans hafi jafnan rétt til að hafa áhrif á skólastarfið, stefnumótun og ákvarðanatöku og skal reynt að tryggja það með sem bestum hætti. Sérstök ábyrgð er lögð á herðar skólastjórnenda. Þeir eiga að leggja áherslu á að allt skólastarf miði að því að undirbúa nemendur af báðum kynjum fyrir einkalíf, fjölskyldulíf, félags- og atvinnulíf. Einnig að námsefni mismuni ekki kynjum og í náms- og starfsfræðslu verði lögð áhersla á að kynna báðum kynjum öll störf óháð því hvort þau hafi verið talin til hefðbundinna kvenna- eða karlastarfa. Starf skólans skal miða að því að styrkja sjálfsmynd nemenda og að starfsfólk sé meðvitað um að nemendur eru fjölbreyttur hópur sem býr yfir mismunandi hæfileikum og áhuga. Skólastjóri ber ábyrgð á að unnið sé með jafnrétti í skólanum og jafnréttiskafli skólanámskrár skal endurskoðaður á þriggja ára fresti.
Nemendur
Lögð er áhersla á að nemendum lærist að þekkja og tjá tilfinningar sínar. Þeir eiga jafnframt að kunna að virða tilfinningar annarra óháð uppruna, kyni, búsetu, trú, fötlun eða kynhneigðar.
Kennsluaðferðir eða námsgögn mega á engan hátt mismuna nemendum enda eiga allir nemendur jafnan rétt til náms.
Öll vinna nemenda skal vera í anda jafnréttis þar sem lögð er sérstök áhersla á að nemendur rækti með sér samkennd, samhygð og virðingu fyrir skoðunum og lífsgildum annarra.
Nemendur eiga að hafa jafnrétti að leiðarljósi í öllum samskiptum. Nemendur vinna með námsefni um jafnrétti í lífsleiknitímum sem og jafnréttisfræðslan flétttast inní önnur fög.
Til að taka á kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni í skólanum, fá allir starfsmenn reglulega fræðslu og málið tekið upp á stafsmannafundi árlega.
Starfsmenn
Starfsmenn skólans eiga að njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar óháð uppruna, kyni, búsetu, trú, fötlun eða kynhneigð. Þeir eiga einnig að búa við jafna möguleika til stöðuhækkana, stöðubreytinga og breytinga á vinnuaðstæðum. Launajafnrétti er í skólanum fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.
Þess skal gætt að á hverjum tíma hafi allir starfsmenn skólans gefið leyfi til þess að aflað sé upplýsinga úr sakaskrá sem meðal annars snúa að kynferðisbrotum. Öllum starfsmönnum þarf að vera ljóst að ofbeldi, áreitni/einelti verði aldrei liðin í skólanum. Stjórnendur bera ábyrgð á því að kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni viðgangist ekki í skólanum og meðferð slíkra mála er í þeirra höndum.
Ef upp koma árekstrar skal hafa samband við skólastjórnendur eða trúnaðarmenn. Eigi yfirmaður hlut að máli skal því strax vísað til fræðslufulltrúa.
Í anda jafnréttislaga eiga stjórnendur að leitast við að gera nauðsynlegar ráðstafanir þannig að starfsmenn, jafnt karlar sem konur, geti samræmt sem best starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Umræðu um jafnréttisáætlunina, bæði það sem snýr að starfsmönnum og nemendum, þarf að taka upp árlega á starfsmannafundum og oftar ef þurfa þykir. Skólastjóri sér um að þessu sé framfylgt.