Eineltisáætlun

Skilgreining á einelti
Margir velta fyrir sér hvenær um sé að ræða stríðni og hvenær stríðni verði að einelti. Almennt er álitið er að stríðni verði að einelti þegar um endurtekna áreitni er að ræða og hegðunarmynstur þolandans breytist vegna hennar.

Einelti er langvarandi ofbeldi. Einstaklingur er tekinn fyrir og píndur andlega eða líkamlega aftur og aftur af einum eða fleiri. Fórnarlambið stendur höllum fæti gagnvart geranda/gerendum.

Beint einelti: Líkamleg píning eða árás, orð og athafnir sem sjást eða heyrast.

Óbeint einelti: Að skilja einhvern útundan, hunsa og neita um aðgang að samfélagi jafningja.

Einstakur ágreiningur milli jafningja telst ekki til eineltis.

Ábyrgð
Einelti kemur öllum við. Það er samfélagslegt vandamál þar sem allir eru ábyrgir. Þess vegna er það siðferðisleg skylda allra að láta vita ef þeir verða varir við að einhver sé lagður í einelti.

Markmið eineltisáætlunar er:
Að gæta þess að einelti þrífist ekki í skólanum.
Að taka strax á eineltismálum ef þau koma upp.