Skólareglur

Námið
Við mætum stundvíslega, vel undirbúin með þau gögn sem nota skal.  Við vinnum eins vel og við getum. Notkun á GSM símum eða öðrum snjalltækjum er óheimil í kennslustundum nema með leyfi kennara.
Samskipti 
Skólinn er vinnustaður okkar allra, hver nemandi og starfsmaður á rétt á því að fá frið við leik og störf.  Samskipti skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu og vinsemd.
Heilbrigði
Við tileinkum okkur hollar lífsvenjur. Við komum í klæðnaði sem hentar veðurfari í hvert sinn. Notkun sælgætis og gosdrykkja er óheimil á skólatíma, nema í undantekningartilvikum með leyfi skólastjóra.  Við virðum landslög og notum alltaf hjálma þegar við á.
Ábyrgð
Við berum ábyrgð á eigin framkomu. Ef um ofbeldi eða ógnandi hegðun er að ræða er nemendum vísað í einveru hjá skólastjóra. Skólinn ber ekki ábyrgð á persónulegum verðmætum, sem komið er með í skólann.  Óheimilt er að koma með í skólann þau tæki og tól sem geta valdið skaða.
Umgengni
Góð umgengni er í hávegum höfð.  Við göngum vel um skólann og berum virðingu fyrir eigum hans og hvert annars.  Við röðum skóm, göngum frá útifatnaði og hirðum vel um námsbækur og önnur gögn. Nemendur yfirgefa ekki skólalóðina á skólatíma án leyfis. 
Ferðir
Í skólabifreiðum, ferðalögum og á skemmtunum á vegum skólans eru allar reglur skólans í fullu gildi, nema annað sé tekið fram.

Vinnureglur við brotum á skólareglum

Ef brot nemandans er minniháttar er unnið út frá fyrsta lið. Ef brotið er alvarlegt er unnið út frá þeim lið sem talinn er hæfa brotinu. Á öllum stigum málsins er meðferð þess skráð í Mentor.

  1. Viðkomandi kennari eða starfsmaður ræðir við nemanda einslega. Nemanda gefst tækifæri að bæta fyrir brot án frekari beitingar viðurlaga. Atburður skráður í Mentor.
  2. Breyti nemandi ekki hegðun sinni er umsjónarkennari/skólastjóri látinn vita og hann gerir nemandanum grein fyrir alvarleika málsins. Ef um ofbeldi eða ógnandi hegðun er að ræða fer nemandi í einveru hjá skólastjóra. Atburðurinn skráður í  Mentor og haft samband heim.
  3. Náist ekki árangur boðar umsjónarkennari/skólastjóri nemanda og forráðamenn hans á fund um málið. Niðurstöður fundarins skráðar og allir viðstaddir kvitta undir. Umsjónarkennari skráir í Mentor.
  4. Skólastjóri vinnur með málið og kynnir það nemendaverndarráði (skólastjóri, sálfræðingur, sérkennslufulltrúi, fulltrúi félagsþjónustunnar og skólahjúkrunarfræðingur).
  5. Ef ekki tekst að finna lausn á vanda nemandans og ef hegðun hans kemur í veg fyrir eðlilegt skólastarf getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla tímabundið, meðan lausn er fundin (Lög um grunnskóla nr. 91/2008, 14. grein ). Skólastjóri vísar málinu til fræðsluyfirvalda.