Fyrirbyggjandi aðgerðir

Það þarf að vera hluti af skólamenningunni að hér líði fólki vel og nota til þess fjölbreyttar og fyrirbyggjandi aðgerðir.

Innræta skal börnum umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileika mannlífsins.

Umsjónarkennari hafi reglulega umræðu í umsjónarbekk sínum um líðan, samskipti og hegðun. Nemendum sé gerð full grein fyrir því að allir séu ábyrgir og fullkomlega eðlilegt sé að láta vita telji þeir að einelti eigi sér stað: „Einelti líðst ekki í skólanum.“

Skipuleggja þarf vel alla gæslu, t.d. á útivakt, í búningsklefum, gangavörslu o.s.frv.

Regluleg fræðsla á að vera í boði um einelti fyrir starfsfólk, foreldra og nemendur.

Gera þarf reglulega kannanir meðal nemenda, forráðamanna og starfsfólks til að fylgjast með líðan nemenda og hugmyndum fullorðinna um stöðu mála varðandi skólabraginn.

Skýrar verklagsreglur þurfa að vera fyrir hendi um það hvernig taka skuli á einelti og kynna þær öllum starfsmönnum skólans sem og foreldrum.

Einelti er eitt best falda ofbeldi sem vitað er um. Það gerist snöggt og er vel falið fyrir þeim sem ekki eiga að sjá eða vita.