Viðbraðgsáætlun starfmanna vegna eineltis

Starfsmenn Brúarásskóla eiga að sýna samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu ísamskiptum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi verður ekki umborin á vinnustaðnum. Meðvirkni starfsmanna í einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi er fordæmd. Miðað er við reglugerð nr. 1009/2015

Stjórnendur bera ekki aðeins ábyrgð á störfum starfsfólks heldur einnig á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna skólans og viðbragðsáætlun til að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi strax við upphaf starfs.

Ef upp koma ágreiningsmál, samskiptaerfiðleikar eða hagsmunaárekstrar sem valdið geta óþægindum er mikilvægt að leysa slík mál án tafar áður en þau þróast til verri vegar. Þetta á bæði við ef slíkt kemur upp milli starfsmanna á vinnustaðnum, milli foreldra nemenda og starfsfólks eða milli starfsfólks og nemenda. Tekið verður á fölskum ásökunum um einelti, áreitni eða ofbeldi af festu.

Brúarásskóli mun grípa til aðgerða gagnvart starfsmönnum, foreldrum eða nemendum sem leggja aðra í einelti, t.d. með áminningu, tilflutningi í starfi eða uppsögn eftir því sem við á. Gerandi eineltis verður látinn axla ábyrgð.

Viðbragðsáætlun:

Starfsmaður sem verður fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni skal snúa sér hið fyrsta til skólastjóra og tilkynna um atvikið. Ef skólastjóri er gerandi málsins eða sinnir því ekki er hægt að snúa sér til viðkomandi trúnaðarmanns.

Þegar skólastjóri eða trúnarðamaður fá vitneskju um einelti munu þeir bregðast við samkvæmt eftirfarandi viðbragðsáætlun.

Strax er metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti.

Skólastjóri eða sá aðili, sem samband er haft við, ákvarðar síðan í samráði við þolandann hvert framhaldið verður. Hægt er að velja á milli óformlegrar eða formlegrar málsmeðferðar.

Óformleg málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Rætt er við viðkomandi geranda og honum leiðbeint. Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið.

Formleg málsmeðferð felst í að gerð er hlutlaus athugun á málsatvikum sem skólastjóri hefur umsjón með. Metið er hvort athugun leiðir til fullnægjandi niðurstöðu eða hvort leitað skuli til utanaðkomandi aðila til að framkvæma mat. Athugun á málsatvikum getur falið í sér að rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupósta, sms-skilaboð eða annað. Allar upplýsingar sem fást um málið verða meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og verða skrifleg gögnvarðveitt á öruggum stað.

Leiði umleitanir skólastjóra eða þess aðila sem stýrir athugun á málinu ekki til lausnar er leitað eftir þátttöku fræðslustjóra. Leiði slíkt ekki til lausnar er leitað eftir mati og aðstoð frá utanaðkomandi aðila.

Ef í ljós kemur að um atvik hafi verið að ræða sem fellur undir skilgreiningar á einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi mun það verða metið með tilliti til alvarleika máls hvort gerandi fái leiðsögn og færi á að bæta ráð sitt, hvort hann fái aðvörun, verður færður til í starfi eða verði vikið úr starfi.

Málinu verður fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Fylgst verður með samskiptum aðila málsins. Láti gerandi ekki segjast og viðheldur þeirri háttsemi sem leiddi til málsmeðferðar, verður þeim starfsmanni umsvifalaust vikið úr starfi.