Marglyttur og íþróttir í leikskólanum

Klara í þrautabrautinni
Klara í þrautabrautinni

Heil og sæl öll. Nú eru komnar nýjar myndir úr leikskólastarfinu. Þær má finna hér.

Mig langar að nýta tækifærið og segja aðeins frá þeim efnivið sem við notumst við í starfinu okkar hérna í leikskólanum. Nánast í hverju einasta föndurverkefni sem við tökum okkur fyrir hendur erum við að nýta eitthvað sem annars flokkast sem sorp og færi í rusl eða í endurvinnslu. Í haust höfum við t.d. gert leðurblökur, vörubíl og bát úr eggjabökkum og dollum undan skyri/sýrðum rjóma, draugarnir voru uppvöðluð síða úr dagblaði og afgangsefni úr handmenntastofunni og í þessari viku gerðum við marglyttur til að hengja upp og notuðum til þess gosflöskur. Við notuðum aðeins neðri helming flöskunnar, en fundum þá næsta verkefni sem nýtir efri part flöskunnar. Blöðin sem við teiknum og litum á erum við langoftast að endurnýta, þ.e. eitthvað annað er á hinni hliðinni. Þegar við æfum okkur að klippa, þá erum við að klippa niður gömul dagblöð og hin ýmsu tímarit og bæklinga sem koma í hús og voru á leiðinni í endurvinnsluna. Það er gaman, krefjandi og lærdómsríkt fyrir bæði okkur Elsu og nemendurna að finna leiðir til að nýta það sem annars teldist sorp og sjá annað í hlutunum en þeir eru í raun. Hverjum hefði dottið í hug að það væri hægt að gera mús úr ónýtum geisladisk? 

Það er gaman að vinna með þennan efnivið og krakkarnir eru duglegir að taka þátt, sjá aðrar hliðar á hlutunum og eru jákvæð í að nýta þá! 

Bestu kveðjur Margrét Dögg og Elsa Björg