Öllum skólum á Íslandi ber að stefna að því að skapa jákvæðan skólabrag. Með því er átt við að reynt sé að skapa nemendum og starfsfólki aðstæður sem þeir geta blómstrað í. Þetta hljómar auðvitað einfalt en svo getur verið ýmislegt sem stendur í vegi fyrir því að þetta takist en þó má segja að mikilvægast sé að allir rói í sömu átt við að reyna að skapa þennan jákvæða skólabrag. Liður í umbótaráætlun Brúarásskóla er að skilgreina þann skólabrag sem Brúarásskóli hefur og vill halda. Síðastliðið vor tók allt starfsfólk skólans þátt í að setja í orð þann skólabrag sem einkennir Brúarásskóla og þann hluta hans sem við viljum efla og standa vörð um. Nú á haustdögum var svo haldinn fundur með 5.-8. bekk og 9.-10. bekk þar sem nemendum gafst kostur á að skilgreina það sem einkenndi skólabrag Brúarásskóla og það var ánægjulegt hvað starfsfólk og nemendur voru sammála um margt. Það kom síðan í hlut skólastjóra að koma öllum þessum punktum í samfelldan texta sem við birtum hér með.
Jákvæður skólabragur Í Brúarásskóla
Í Brúarásskóla reynum við öll að skapa skólabrag sem einkennist af jákvæðum samskiptum, væntumþykju, húmor, sköpunargleði, samvinnu og samstöðu. Við viljum nýta þau tækifæri sem fylgja því að vera lítill sveitaskóli og viljum skapa, rólegt, afslappað og heimilislegt andrúmsloft þar sem traust ríkir milli allra sem tilheyra skólasamfélaginu og svigrúm er til að hlúa betur að hverjum og einum nemanda. Við reynum eftir fremsta megni að tryggja að virðing einkenni öll samskipti milli starfsfólks, nemenda og foreldra. Við leggjum okkur fram við að halda merkjum umburðarlyndis og samkenndar á lofti og það kristallast í einkunnarorðum skólans sem eru ,,hver og einn er einstakur“. Skólinn leggur áherslu á sjálfstæð vinnubrögð og sköpun í ,,Brúarverkefnum“ þar sem nemendur hafa mikið um það að segja hvernig þeir vinna með viðfangsefni í hverri þemalotu. Við reynum einnig að nýta okkur þau tækifæri sem einstakt umhverfið og náttúran í Jökulsárhlíð veitir okkur til útikennslu og útiveru og leikir og íþróttir eru stór partur af skólabrag Brúarásskóla enda er aðstaða til íþróttaiðkunar góð. Á skólalóðinni erum við með útileiktæki, sparkvöll og ærslabelg og inni höfum við stóran íþróttasal sem er nýttur á hverjum einasta skóladegi. List- og verkgreinum er gert hátt undir höfði í Brúarásskóla og við eigum í farsælu samstarfi við Tónlistarskóla Norður Héraðs í því verkefni og því hefur tónlistarlíf í Brúarási lengi verið eitt af aðalsmerkjum skólastarfsins í Brúarási. Við viljum að skólastarfið í Brúarási sé skemmtilegt og við reynum að fást við námsefnið með það að leiðarljósi en við erum ennfremur með þónokkuð af viðburðum og uppbrotsdögum sem eru hluti af sterkum hefðum skólans og við stöndum vörð um.