Glæsilegur árangur í Skólahreysti

Lið Brúarásskóla í Skólahreysti 2023. F.v. Þorvaldur, Ásgeir, Eyrún, Guðrún, Jódís og Júlíus.
Lið Brúarásskóla í Skólahreysti 2023. F.v. Þorvaldur, Ásgeir, Eyrún, Guðrún, Jódís og Júlíus.

Skólahreystiliðið okkar stóð sig hreint stórkostlega í keppni sem fór fram á Akureyri miðvikudaginn 26. apríl síðastliðinn. Langt er líðið síðan öllum nemendum Brúarásskóla gafst kostur á að styðja sína fulltrúa í keppninni og það er óhætt að segja að stemningin í þeim hópi sem studdi við liðið í íþróttahöllinni á Akureyri hafi verið frábær. Liðið hefur æft mjög vel fyrir keppnina undanfarnar vikur og það sást svo sannarlega á frammistöðunni. Það var hvalreki í undirbúningnum að keppninni að Stefán Bragi Birgisson bóndi á Galtarstöðum tók að sér þjálfun liðsins eftir áramótin en hann keppti á sínum tíma tvisvar í úrslitum Skólahreysti fyrir Egilsstaðarskóla.  Hann á sannarlega sinn hlut í frábærum árangri liðsins. Mjótt var á mununum í þeim riðli sem lið Brúarásskóla keppti í og fyrst var útlit fyrir að Brúarásskóli hefði borið sigur úr bítum en eftir langan fund dómara keppninnar kom í ljós að of mörg refsistig höfðu verið dregin af liði  Varmahlíðarskóla svo þeim var úrskurðaður sigur. Það dregur þó á engan hátt úr glæsilegri frammistöðu okkar liðs og talsverðar líkur eru enn á því að frammistaðan fleyti líðinu alla leið í úrslit.  Það mun að öllum líkindum skýrast 5. maí. þegar keppni verður lokið í öllum riðlum.