Jólakveðja

Nú er litlu jólunum hér í Brúarási lokið og við vonum að það hafi tekist að senda alla heim í jólafríið með góðar minningar frá þessum degi. Við vonum eflaust öll að á næsta ári getum við haldið hefðbundin litlu jól með pompi og prakt en það virðist ljóst á þessari stundu að við verðum öll að þreyja þorrann og góuna þegar kemur að baráttunni við covid. Þrátt fyrir allt hefur skólastarfið gengið vel þessa haustönnina að mörgu leiti. Nemendur hafa staðið sig vel á ýmsum sviðum og langar mig sérstaklega að nefna miklar framfarir sem margir nemendur náðu í nýafstöðnu lestrarátaki hér í skólanum. Mig langar líka að þakka öllum sem komu að sérlega vel heppnuðum jólatónleikum tónskólans hér í Brúarási fyrir sléttri viku síðan. Þar fengu hæfileikar nemenda að njóta sín og það var sannarlega gaman að upplifa loksins vel heppnaða skemmtun með öllu skólasamfélaginu. En nú tekur jólafríið við og því fylgir alltaf gleði og eftirvænting að minnsta kosti meðal barnanna. Mig langar fyrir hönd starfsfólks Brúarásskóla að óska öllum nemendum, foreldrum og forráðamönnum gleðilegra jóla og þakka fyrir gott samstarf á haustönninni. Við byrjum svo vorönnina þriðjudaginn 4. janúar samkvæmt stundatöflu en daginn áður þann 3. janúar verður starfsdagur leik- og grunnskóla hér í Brúarási.

Kærar jólakveðjur

ÁIA