Leikhúsferð

Í dag, 27. október, bauð Þjóðleikhúsið öllum 5 og 6 ára börnum í okkar skólaumdæmi á leiksýningu í Valaskjálf á Egilstöðum.

Þjóðleikhúsið hefur nú í sjö ár boðið öllum 5 ára börnum á Stór-Reykjavíkursvæðinu á Sögustund, litla leiksýningu. Á hverju ári hafa komið um þrjú þúsund börn ásamt kennurum. Þátttaka skólanna hefur verið 1oo% og mikil ánægja með þessar sýningar jafnt hjá börnunum sem kennurum. Nú fannst þeim kominn tími til að heimsækja okkur og er sýningin samstarfsverkefni Þjóðleikhússins, Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og Valaskjálfar.

Með þessum sýningum vill Þjóðleikhúsið leggja sitt að mörkum til að kynna börnum töfraheim leikhússins. Leikhúsferðir geta veitt mikla gleði, örvað þroska og eflt hæfileika okkar til að takast á við lífið og tilfinningarnar.

Sýningin í ár heitir Brúðukistan, sjö stuttar sögur, sem Brúðumeistarinn Bernd Ogrodnik sýnir á sinn einstaka hátt.

Bernd hefur verið að ferðast með þessa sýningu um allan heim á þessu ári og er nýbúið að sýna fyrir alla skólana á Stór-Reykjavíkursvæðinu.